Mjólkursykursóþol

Mjólkursykursóþol (lactose intolerance) er algengt í heiminum en geta flestra til að melta mjólkursykur (lactose) minnkar með aldrinum. Hægt er að fá óþolið á barnsaldri og tiltölulega algengt er að þetta komi fram á unglingsárum en einkenni geta í raun komið á hvaða aldri sem er. Um tveir þriðju hluti manna í heiminum hefur mjólkursykursóþol og er tíðnin mismunandi eftir kynstofnum og er t.d. mun lægri í Norður-Evrópu en í Asíu.
Í þessari grein fjallar Kolbrún Einarsdóttir, næringarfræðingur, um mjólkursykursóþol, einkenni, greiningu og gefur líka góð ráð. 

Mjólkursykursóþol (lactose intolerance) er algengt í heiminum en geta flestra til að melta mjólkursykur (lactose) minnkar með aldrinum. Hægt er að fá óþolið á barnsaldri og tiltölulega algengt er að þetta komi fram á unglingsárum en einkenni geta í raun komið á hvaða aldri sem er. Um tveir þriðju hluti manna í heiminum hefur mjólkursykursóþol og er tíðnin mismunandi eftir kynstofnum og er t.d. mun lægri í Norður-Evrópu en í Asíu. Algeng einkenni mjólkursykursóþols eru uppþemba, loftgangur, kviðverkir og niðurgangur. Síðustu ár hafa þó ýmis önnur sjúkdómseinkenni verið nefnd sem fylgikvillar mjólkursykursóþols þó ekki sé vitað hvernig þau tengjast en þetta eru ógleði, hægðatregða, höfuðverkur, mígreni, slappleiki, einbeitingarskortur, vöðvaverkir, liðverkir, sár í munni, þvagvandamál og húðeinkenni.

Hvað er mjólkursykursóþol?

Efnahvatinn laktasi myndast í slímhúð meltingarvegar og sér um að brjóta niður tvísykruna mjólkursykur niður í einsykrurnar glúkósa og galaktósa sem meltingarvegur frásogar síðan út í blóðið. Ef laktasi er ekki til staðar í nægu magni í meltingarvegi fer allur eða hluti af mjólkursykrinum ómeltur niður í ristil. Bakteríuflóran í meltingarvegi getur nýtt sér mjólkursykurinn og brýtur hann þá niður og við það myndast gös sem valda uppþembu, loftgangi og kviðverkjum. Einnig veldur ómeltur mjólkursykur í ristli auknum vökva í ristli og því meiri hættu á niðurgangi eða lausum hægðum. Í dag eru ýmsar kenningar uppi um mikilvægi meltingarflórunnar og samsetningu hennar í meltingarvegi en ómeltur mjólkursykur í görn og ristli getur valdið breytingum á meltingarflórunni.

Greining

Greiningaraðferðir mjólkursykursóþols hafa fyrst og fremst verið tvær. Við báðar aðferðirnar er fólki gefinn mjólkursykur og síðan annað hvort skoðað hvort blóðsykur hækki eðlilega í ákveðinn tíma á eftir eða mæld gös í útöndun í ákveðinn tíma. Þessi próf geta verið falskt jákvæð og falskt neikvæð þar sem ýmsir aðrir þættir geta haft áhrif á niðurstöður eins og við margar aðrar rannsóknir. Blóðsykurssveiflur geta verið mismunandi eftir einstaklingum og misjafnt getur verið hvenær gasið myndast í meltingarvegi þannig að hægt sé að mæla það við útöndun.  Mikilvægt er í báðum þessum prófum að fylgjast einnig með einkennum á meðan á prófinu stendur og næsta sólarhring. Við greiningu á mjólkursykursóþoli er alltaf mikilvægt að forðast allan mjólkursykur í 10-14 daga og finna margir mikinn mun á sér á innan við viku en sumir þurfa allt upp í mánuð að jafna sig á t.d. langvarandi niðurgangi. Ef ástand lagast er mikilvægt að borða mjólkursykursríka mjólkurvöru og sjá hvort einkenni komi aftur. Síðar verður hver og einn að skoða hversu mikinn mjólkursykur hann þolir þar sem mjólkursykursóþol er magntengt og getur einn þolað allt upp í 1 glas af mjólk í máltíð meðan aðrir þola nánast ekkert. Mjólkurofnæmi er mun sjaldgæfara en mjólkursykursóþol en getur einng valdið meltingareinkennum. Þeir sem greinast með mjólkurofnæmi þurfa að forðast allar mjólkurvörur og mjólk í matvörum. Mikilvægt er að átta sig á hvort um mjólkursykursóþol eða ofnæmi fyrir mjólk er að ræða þar sem stór munur er á fæðuvali.

Hvað er til ráða?

Mjólkursykur er eingöngu í mjólk og getur þar með verið í öllum matvörum sem innhalda mjólk. Sýrðar mjólkurvörur innihalda oft aðeins minni mjólkursykur en mjólk þar sem gerillinn brýtur mjólkursykurinn niður við gerjunina. Við framleiðslu er þó stundum bætt við mjólkurdufti eftir á þannig að eftir stendur vara með svipað magn af mjókursykri og mjólkin. Við ostagerð síast mikið af mjólkursykrinum með ostamysunni og sá mjólkursykur sem situr eftir í ostamassanum hverfur að mestu ef ostar standa og gerja í meira en einn mánuð eins og flestir brauðostar og mygluostar. Þeir sem hafa mjólkursykursóþol þola flestir að borða venjulega osta en færri þola sýrðu mjólkurvörurnar. Smjör inniheldur lítið magn af mjólkursykri en þeir sem ekki þola það geta hitað smjörið við vægan hita og kælt aftur. Þá situr mjólkin á botninum og hægt að hella henni frá. Þetta kallast að skíra smjörið og Indverjar nota mikið þessa tegund af smjöri sem kallast ghee. Gott er að bæta matarolíu út í smjörið þegar það er hitað til að mýkja það. Einnig er hægt að fá í verslunum mjúkt smjörlíki án mjólkur sem nýtist bæði fólki með mjólkursykursóþol og ofnæmi fyrir mjólk.

Í dag er hægt að fá laktósafría mjólk og mjólkurvörur í verslunum en búið er að brjóta niður mjólkursykurinn í þessum vörum þannig að fólk með mjólkursykursóþol þolir þær. Erfitt er að átta sig á hversu mikill mjólkursykur er í matvörum sem innhalda mjólkurduft, mysuduft, mjólkurprótín, mysuprótín, súrmjólk, rjóma ofl. Sjaldan er gefið upp magn af mjólkursykri í matvöru og verður fólk því að lesa vel innihaldslýsingar og forðast þær vörur sem innihalda mjólkurvörur. Þegar mjólkurvara er tilgreind framarlega í innihaldslýsingu má reikna með að hún innihaldi meira magn af mjólkursykri en ef hún er tilgreind aftarlega. Margir þola að borða vörur sem innihalda mjólk í litlu mæli en einnig eru margir sem þola það alls ekki. Ef framleiðendur myndu gefa upp magn af mjólkursykri á umbúðum myndi það auðvelda líf þeirra sem þola að borða mjólkursykur í ákveðnu magni. Þeir sem þola lítið þurfa að forðast allt sem innheldur mjólk nema ost og laktaósafríar vörur. Þeir þola einnig oft illa kryddblöndur og lyf sem innhalda mjólkursykur en mjólkursykur er oft notaður í lyfja- og matvælaiðnaði sem fylliefni. Á markaðnum er hægt að fá í dag laktasa ensím (lactase) sem hægt er að taka inn með lyfjum sem innihalda mjólkursykur eða með máltíð og getur það hjálpað við að melta mjólkursykurinn. Ekki er þó hægt að treysta alveg á að þetta virki alltaf eins og til er ætlast.

Þeir sem forðast mjólkursykur og nota ost og laktósafríar mjólkurvörur fá sama magn af kalki og öðrum næringarefnum eins og frá venjulegum mjólkurvörum. Mjólkurvörur eru stærsti kalkgjafinn í okkar mataræði og mikilvægt að forðast ekki mjólkurvörurnar meira en þörf er á. Þeir sem borða lítið eða engar mjólkurvörur ættu að taka inn kalkviðbót.

Lokaorð

Fólk með óútskýrð meltingareinkenni ættu að skoða hvort um mjólkursykursóþol geti verið að ræða. Fólk með gigtarsjúkdóma er ekki undanskilið þar sem einkenni mjólkursykursóþols geta mögulega aukið á einkenni sumra gigtarsjúkdóma eins og liðverki og vöðvaverki. Mikilvægt er að leita til meltingarlækna með sín meltingarvandamál og ef hjálpar að forðast mjólkursykurinn að leita þá ráða hjá næringarfræðingi.

Vörur sem geta innihaldið mjólkursykur.

Lesið innihaldslýsingar.

Mikið Minna Lítið eða ekkert
Mjólk og mysa Unnar kjöt- og fiskvörur Laktósafrí mjólk
Sýrðar mjólkurvörur Tilbúinn matur Laktósafríar mjólkurvörur
Rjómi Sósur og súpur Brauðostar
Ferskir ostar og rjómaostar Kökur og kex Mygluostar
Mysuostar Kryddblöndur Smurostar
Ís Smjör  
Mjólkur- og rjómasúkkulaði Lyf  
Kolbrún Einarsdóttir, næringarfræðingur
Birt í Gigtinni 2. tbl. 2015